Ég á mér draum

Ég á mér draum

Ég á mér draum um að fólk gefi fallegar nytjavörur sem gjöf s.s. jólagjöf, afmælisgjöf o.fl.

Fyrir 2 árum síðan hefði ég aldrei trúað að ég myndi segja þetta upphátt. Ég var föst í neysluhyggjunni sem ég því miður held að alltof margir séu einnig fastir í. Mér hefði aldrei dottið í huga að gefa eitthvað notað til nokkurns manns nema sem ölmusu og þá að taka það sérstaklega fram að það sé notað. Ég er nefnilega af þeirri kynslóð sem ólst upp við að það var mikilvægt að fá ný föt fyrir jólin og ný föt fyrir fyrsta skóladaginn.  Þetta skýtur svolítið skökku við því ekki var kynslóð foreldra minna efnuð en samt þótti þetta vera afar mikilvægt.

Þegar ég opnaði Gallerí Fló þá var hugsunin ekki að verða að einhverju stórveldi, við ætluðum bara að hafa markað eina helgi. En síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og ég sjálf breyst mjög mikið við rekstur þessa fyrirtækis. Það sem hefur allra helst breyst hjá mér er hugur minn til nytjavara því ég hef orðið beint vitni af því hversu mikið af fallegum munum eru til í samfélaginu sem eigendur þess neyðast til þess að setja í ruslið.

Ég hef bjargað ótal fallegum antík og sögulegum munum við það bjóða upp á þjónustu mína í Gallerí Fló.

En það er ekki nóg að bjarga þessum munum því plássið er ekki endalaust. Það þarf neytendur, kaupendur af þessum munum sem sjá virðið í þeim. Og þar liggur hnífurinn í kúnni, því miður tel ég okkur íslendinga eiga langt í land með að vera komin á þann stað að kunna að meta endurnýtingu. Unga kynslóðin leiðir hins vegar vagninn og eru sem betur fer með rétta hugarfarið er kemur að endurnýtingu.

En ég á mér samt draum um að fólk gefi fallegar nytjavörur sem gjöf um jólin.

Back to news