Frekjan
Share
Við heillumst af sögu og erum dugleg að finna sögu hluta sem koma í umboðssölu til okkar. Stundum er sagan um hlutinn og stundum er sagan um eigandann en hún hreyfir alltaf við okkur og við förum jafnvel að meta hlutinn að verðleikum. Að þessu sinni hefur Gallerí Fló fengið í umboðssölu falleg gegnheil eikar stofu- og borðstofu húsgögn flutt inn frá Danmörku í nóvember árið 1945. Settið kemur frá manni (f. 1914) sem á sér merkilega seinni heimsstyrjaldar sögu/afrek sem var skrifað um í bókinni “Frekjan” og var gefin út árið 1941 af I. Ástmarssyni [Ísafoldarprentsmiðja h.f.].
Frekjan segir frá ævintýralegu ferðalagi 7 ungra íslendinga frá Danmörku til Íslands í júlí - ágúst 1940 og á meðal þessara ferðalanga var eigandi þessari húsgagna, þá 26 ára gamall.
Byrjum á byrjuninni því þessi maður var menntaður vélvirki og átti frystivéla fyrirtæki sem sá meðal annars um innflutning tengt því og átti sinn þátt í því að við íslendingar gátum opnað frystihús. Árið 1940 var okkar maður á viðskiptaferðalagi ásamt félögum sínum í Danmörku og lokuðust þeir þar inni vegna stríðsins (WWII).
Margir þeirra félaga áttu konur, börn og bú á Íslandi og því örvæntingin nokkur að komast heim. Einn þeirra félaga var með skipstjóra reynslu og úr varð að þeir keyptu sér bát sem hét Frekjan og tóku það hugrakka skref að sigla saman heim til Íslands. Þar sem okkar maður var vélvirki þá var hlutverk hans að sjá til þess að vélarnar héldust gangandi á meðan ferðinni yfir hafið stóð. Þeir komust allir heilir höldnu til Íslands sem þykir ekki sjálfsagt og svo merkilegt að um það var skrifað í bókinni Frekjan.
Stríðinu lauk og fljótlega eftir það, í nóvember 1945, fer okkar maður aftur til Danmörku og í þeirri ferð keypti hann m.a. þessi húsgögn og flutti til Íslands og eru nú komin í umboðssölu hjá Gallerí Fló.
Húsgögnin hafa haldist innan sömu fjölskyldu alla tíð þar til nú og ávalt vel hugsað um þau og hafa mörg afmælisboð verið haldin með þessu setti (sjá mynd úr einkaeigu). Settið samanstendur af stækkanlegu borðstofuborði (8-10 manna), skenk og stofu skáp. Hlutina er hægt að kaupa staka eða saman á góðu tilboði. Upprunaleg kaupnóta hefur varðveist öll þessi ár og er því til staðar sem heimild um aldur og uppruna. Húsgögnin hafa verið reglulega olíuborin alla þessa áratugi og því engin merki um sprungur eða slíkt. Lyklar eru til af báðum skápum. Borðstofustólarnir voru bólstraðir fyrir um 20 árum hjá faglærðum bólstrara. Efnið er föl grænt og af góðum gæðum.

Sagan um Frekjuna er áhugaverð og er í hættu að gleymast því vonum við að þessi pistill veki áhuga einhverja á því að kynna sér þessa bók.



